Comic Sans

Comic Sans

Letrið Comic Sans hefur lengi verið milli tannanna á fólki - annaðhvort vegna haturs eða ástar, þó mest haturs. Eins og nafnið gefur til kynna var letrið upprunalega búið til af Microsoft fyrir talblöðrur í myndasögum og var innblásið af letrinu í myndasögunum um Batman og Watchmen. Þetta var árið 1994 og varð letrið fljótt vinsælt í leik- og grunnskólum þökk sé gamansömu og barnslegu útliti. Seinna byrjuðu stofnanir á borð við sjúkrahús, lögregluembætti og fréttastofur að nota þetta kómíska letur fyrir alvarleg skilaboð, plaköt og fréttabréf - hönnuðum og fagurkerum til mikillar mæðu.

Á síðunni comicsanscriminal.com má sjá lista yfir viðeigandi notkun á letrinu og eru aðeins taldar upp þrjár ástæður. Samkvæmt anti-Comic Sans mönnum má aðeins notast við letrið þegar:

  • markhópurinn er undir 11 ára.
  • þú ert að hanna og skrifa teiknimyndasögu. Þó er mælt með öðrum viðeigandi og fallegri leturgerðum.
  • áheyrendur eru lesblindir og hafa tekið skýrt fram að þeir kjósi Comic Sans fram yfir önnur letur. Fáir vita að Comic Sans er þekkt fyrir að vera auðlesanlegt fyrir lesblinda en virkar vissulega ekki fyrir alla.

Talið er að um 10% almennings eigi við lesblindu að stríða og er því einnig mikilvægt að hönnuðir íhugi slík mál - ekki aðeins útlit og hönnun texta. Princeton háskólinn gerði einnig rannsókn árið 2010 þar sem nemendur voru látnir lesa texta í letri sem talið var erfitt að lesa, þar á meðal Comic Sans. Niðurstöðurnar voru sláandi og kom í ljós að nemendurnir inntóku fleiri upplýsingar úr efni með ljótu eða torlesnu letri.

Til gamans má geta að árið 2009 ákváðu tveir hollenskir plötusnúðar í útvarpsþætti þar í landi að halda Comic Sans daginn hátíðlegan fyrsta föstudag í júlí ár hvert. Í tilefni þess yfirfæra mörg hollensk fyrirtæki heimasíður sínar í Comic Sans letur þann dag. H:N menn þverneita þó að fara eftir fordæmi þeirra í þeim málum.

Enga feimni!

Hringdu núna! Við erum samskiptastofa. Það er gott að tala við okkur. 

Bankastræti 9
520-2700
Facebook
Instagram
YouTube

Þú getur skráð þig á póstlistann okkar. Við sendum bara einu sinni í mánuði og segjum bara frá því sem er skemmtilegt.