Pósturinn blogg

Hvers vegna er póst­kassinn rauður?

Þegar við heyrum orðið póstkassi sjáum við flest fyrir okkar rauðan, sporöskjulaga kassa festan upp á húsvegg einhvers staðar í alfaraleið. Ekki gerist þörf á merkja þessa kassa sérstaklega því allir vita hvert notagildi þeirra er og hinn rauði einkennislitur ber með sér skýr skilaboð. En er það svo að allir póstkassar séu rauðir? Það er nefnilega ekki sjálfgefið!

Talið er að fyrsti póstkassi veraldarsögunnar hafi verið settur upp í Parísarborg árið 1653 en ekki er vitað hvernig hann var á litinn. Póstkassarnir í París eru þó gulir í dag og er sá litur mjög ráðandi á póstkössum í Evrópu. Á fyrri hluta nítjándu aldar voru póstkassar komnir víða upp í Frakklandi og síðar í Englandi. Fyrsti kassinn í Englandi var sívalur og var settur upp við Botchergate í Carlisle árið 1853. Árið 1856 hannaði Richard Redgrave skrautlegri sívala póstkassa sem settir voru upp í London og öðrum stærri borgum þar í landi. Kassarnir voru hafðir grænir að lit til að falla betur inn í umhverfið.

Landakort - póstkassinn

Á árunum 1866 til 1879 urðu svo sexhyrndir póstkassar hið staðlaða form á Englandi og árið 1874 var fyrsti póstkassinn þar málaður rauður til að fólk tæki betur eftir þeim. Það tók tíu ár að mála alla póstkassana á Englandi í rauðum lit. Smá undantekning var þó gerð á rauða litnum þegar nokkrir póstkassar voru málaðir gylltum lit árið 2012 til heiðurs gullverðlaunahöfum Breta á Ólympíuleikunum.

Í Bandaríkjunum fóru póstkassar að spretta upp um allt land í kringum 1850. Upphaflega voru þeir hengdir utan á hús eða staura en rétt fyrir aldamótin 1900 tóku frístandandi póstkassar við og horfðu Bandaríkjamenn þá til nágranna sinna í norðri, þar sem slíkir kassar höfðu reynst vel. Og eins og með svo margt í landi hinna frjálsu og hugrökku eru póstkassarnir miðaðir út frá bílaumferð, þ.e. að þeir sem nota póstkassana geti keyrt sem allra næst þeim. Þar voru fyrstu póstkassarnir upphaflega rauðir eða grænir að lit en árið 1909 voru þeir allir málaðir í dökk grænum lit til að koma í veg fyrir að fólk ruglaðist á þeim og neyðar- og brunaútbúnaði.

Ástæðan fyrir dökkgræna litnum var sú að bandaríski herinn gaf póstinum þar í landi afgangslit úr fyrri heimsstyrjöldinni. Sá litur hélst síðan á kössunum allt til ársins 1955 þegar Arthur Summerfield, póstmálastjóri, tilkynnti að póstkassarnir skyldu nú verða málaðir í bláum, hvítum og rauðum lit. Árið 1971 voru kassarnir svo málaðir dökkbláir og hafa haldið þeim lit síðan.

Í Rússlandi voru fyrstu póstkassarnir settir upp í Pétursborg árið 1848 en þeir voru gerðir úr járni og tré. Þeir voru mjög léttir sem hafði þær afleiðingar að auðvelt var að stela þeim. Rússnesk stjórnvöld brugðust við þessum vanda með því að breyta póstkössunum og seinni tíma kassarnir voru því gerðir úr járni og gátu vegið allt að 45 kílóum. Póstkassar hafa einnig valdið öðrum og ófyrirséðum vandræðum víðar í heiminum og sem dæmi má nefna notaði Írski lýðveldisherinn, IRA, þá til að koma fyrir sprengjum. Þá voru rúmlega 7 þúsund póstkassar teknir úr umferð eftir hryðjuverkaárásirnar í Bandaríkjunum þann 11. september árið 2011.

póstkassinn

Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd er rauði liturinn langt frá því að vera eini liturinn sem notaður er á póstkassa, þeir geta verið gulir, bláir, grænir og jafnvel appelsínugulir - allt eftir löndum. Fyrir áhugasama má þó nefna að samkvæmt Hinni konunglegu póstþjónustu (breska póstinum) er póstkassarauði liturinn, litur númer 485 í Pantone-litakóðanum, 255,0,0 í RGB og í Hex-kóðanum #FF0000.

Með tilkomu tölvupóstsins og annarra tækniframfara verður að segjast eins og er að póstkassar hafa átt undir högg að sækja undanfarin ár. Þeim fer ört fækkandi enda mun færri sem senda hefðbundin bréf í dag. Póstkassar eru að okkar mati hins vegar mikil prýði og saga þeirra skemmtilegri og margslungnari en okkur óraði fyrir.

Enga feimni!

Hringdu núna! Við erum samskiptastofa. Það er gott að tala við okkur. 

Bankastræti 9
520-2700
Facebook
Instagram
YouTube

Þú getur skráð þig á póstlistann okkar. Við sendum bara einu sinni í mánuði og segjum bara frá því sem er skemmtilegt.