Matador

Monopoly er 80 ára

Það hefur örugglega hvert fullvaxta mannsbarn spilað Monopoly allavega einu sinni um ævina. Já, eða Matador eins og Íslendingar og norrænir vinir okkar kjósa að kalla sína útgáfu af spilinu. Borðspilið heimsfræga fagnar 80 ára afmæli í ár og því upplagt að renna yfir sögu þess, sem og skemmtilegar staðreyndir því tengdu.

Bandaríkjamaðurinn Charles Darrow byrjaði að þróa spilið árið 1933 og notaði Atlantic City í New Jersey sem fyrirmynd. Formlegur afmælisdagur spilsins er 19. mars 1935 en þá keypti framleiðandinn Parker Brothers réttinn á spilinu af Darrow. Þeir bræður sjá varla eftir þeirri ákvörðun í dag. Fyrsta spilið var framleitt og selt í lítilli verslun í heimaborg Darrows, Fíladelfíu árið 1935 og síðar um öll Bandaríkin sem og í Bretlandi. Til að sníða spilið að breskum markaði og neytendum var nöfnum á götunum breytt í nöfn þekktra gatna í Lundúnum og hefur þessi siður haldist til dagsins í dag í þeim 114 löndum þar sem Monopoly er gefið út. Innan árs frá útgáfu spilsins voru 35.000 eintök framleidd á viku hverri í Bandaríkjunum og spilið selt á tvo dollara eða um 270 krónur miðað við núverandi gengi. Það köllum við gjöf en ekki gjald.

Borðspilið teygði sig meira að segja yfir í hernað og var notað sem nokkurs konar smyglbúnaður í seinni heimsstyrjöldinni. Flóttakortum, áttavitum og hinum ýmsu gögnum var komið fyrir í kössum og umbúðum spilsins og þannig smyglað inn í þýskar herbúðir. Einnig þekkjast dæmi þess að alvöru bréfpeningum hafi verið komið fyrir í stað Monopoly peninga sem var svo komið til þeirra sem hugðust flýja herbúðirnar. Ansi lausnamiðaðir þarna í stríðinu.

Matador - allt

Spilið hefur verið útfært á hina ýmsu vegu í áranna rás. Árið 1970 var búin til útgáfa fyrir sjóndapra og notast við blindraletur á spjöldum og borðspilinu sjálfu. Árið 1978 tók Neiman Marcus verslunarkeðjan upp á því að búa til súkkulaðiútgáfu af spilinu fyrir jólin og kostaði sú sykursæta útfærsla hvorki meira né minna en 600 dollara eða um 80.000 krónur. Skartgripasalinn Sidney Mobell bjó síðan til dýrasta Monopoly-sett fyrr og síðar árið 1998 sem metið er á um 270 milljónir króna. Spilið varð síðan stafrænt árið 2008 með komu Monopoly snjallsímaappsins.

Monopoly á að sjálfsögðu sitt eigið heimsmeistaramót sem fór fyrst fram árið 1973 og var síðast haldið í Las Vegas árið 2009. Þá vann Norðmaðurinn Bjørn Halvard Knappskog en ekki örvænta kæru Íslendingar, því enn er von að næla sér í þennan eftirsótta titil. Næsta mót verður haldið í Macau í Kína í september á þessu ári og væri ekki amalegt ef Íslendingur myndi ræna titlinum af Norðmönnunum.

Til gamans má geta að í Matador er Bankastræti með dýrustu götum í spilinu á heilar 3500 krónur en Austurstræti var þeirra dýrust, eða á 4000 krónur. Árið 1993 var þó gerð önnur íslensk útgáfa af Monopoly og var þá leitað til fasteignasala landsins um dýrustu götur borgarinnar. Þá var Kringlan þar hlutskörpust og á eftir kom Mjóddin, Miðbærinn og nokkrar nýjar götur úr nýjustu hverfum þess tíma, Grafarvogi og Hraunbæ. Nú eru tímarnir aðrir og eflaust mætti snúa aftur til gamla Matardor-spilsins þar sem eignir í miðbænum eru aftur orðnar þær dýrustu og eftirsóttustu á höfuðborgarsvæðinu. Er það von okkar hjá H:N að með Bankastrætisvísitölunni og virku aðhaldi hennar muni Bankastrætið ná nýjum hæðum sem verðmætasta gata Matador ef til þess kemur að endurútgefa borðspilið klassíska.

Að lokum teljum við upp nokkrar skemmtilegar staðreyndir um Monopoly sem eflaust fæstir vissu:

  • Frá því fjöldaframleiðsla hófst á spilinu hafa yfir 5 milljarðar af grænum húsum verið framleidd. Mætti því kalla herra Monopoly stærsta byggingarverktaka og fasteignasala heims?
  • Árið 2008 settu aðdáendur Monopoly skráð heimsmet þegar 3000 manns spiluðu spilið á sama tíma.
  • Lengsti Monopoly-leikurinn varði í 70 daga. Stanslaust.
  • Lengsti leikur sem spilaður hefur verið á hvolfi entist í 36 tíma. Það hefur verið meiri hausverkurinn.
  • Talið er að meira en 1 milljarður hafi spilað leikinn frá árinu 1935.
  • Í dag er spilið gefið út á 47 tungumálum og selt í 114 löndum.
  • Borðspilið hefur komið víða við á kvikmynda- og sjónvarpsskjám og verið spilað af persónum í myndum á borð við One Flew Over the Cuckoo’s Nest og Zombieland og einnig í sjónvarpsþáttunum umtöluðu Gossip Girl.

Þá er teningunum kastað og ekki úr vegi annað en að henda í spil!

Enga feimni!

Hringdu núna! Við erum samskiptastofa. Það er gott að tala við okkur. 

Bankastræti 9
520-2700
Facebook
Instagram
YouTube

Þú getur skráð þig á póstlistann okkar. Við sendum bara einu sinni í mánuði og segjum bara frá því sem er skemmtilegt.