Spornó - metró

Spornó tekur við af metró

Metrósexúalmaðurinn er dauður og spornósexúalmaðurinn hefur tekið við. Þessu heldur blaðamaðurinn Mark Simpson fram í grein sem hann skrifaði í sumar en hann var fyrstur manna til að skilgreina metrósexúalmanninn fyrir 20 árum.

Markaðsmenn og framleiðendur - ekki síst þeir sem starfa innan tískugeirans – kættust mikið þegar metrósexúalmaðurinn kom fram því þar var kominn fram nýr hópur neytenda - óplægður akur - sem þar að auki hafði töluverða peninga á milli handanna.

„Metrósexúalmaðurinn [...] er sennilega vænlegasti neytendamarkaður næsta áratugar,“ spáði Simpson árið 1994.

Samkvæmt skilgreiningu Simpson var metrósexúalmaðurinn ungur piparsveinn, vel stæður, sem bjó og vann í borginni því þar komst hann í allar bestu búðirnar. Metrósexúalmaðurinn lagði mikið upp úr útlitinu og eyddi miklum tíma og fé í kaup á fötum og snyrtivörum.

Metrósexúalmaðurinn lifði góðu lífi í þessi tuttugu ár þar sem hinn breski David Beckham var um tíma helsta táknmynd hans. Þótt Beckham hafi verið vel þekktur fyrir hæfileika sína á knattspyrnuvellinum er hann þó sennilega frægari sem einhverskonar tískutákn.

Samkvæmt Simpson hefur metrósexúalmaðurinn nú gengið í gegnum unglingsárin og er að verða fullorðinn. Með nýjum áherslum og ekki síst nýrri tækni hefur hann tekið miklum breytingum þar sem samfélagsmiðlar, sjálfsmyndir (e. selfies) og klám spila stóra rullu. Metrósexúalmaðurinn er orðinn spornósexúal.

Orðið sporno er samsett úr ensku orðunum sport og porno. Simpson segir að hægt sé að lýsa spornósexúalmanninum á þann veg að íþróttir og klám séu komin í eina sæng og tískumógúllinn Armani standi hjá til að taka myndir af þeim.

Markaðsmenn og framleiðendur þurfa ekki að óttast að þeir séu að missa spón úr aski sínum með dauða metrósexúalmannsins því eins og Simpson bendir á hefur spornósexúalmaðurinn mikinn áhuga á fötum eins og fyrirrennari hans.

Áherslan hjá spornósexúalmanninum er hins vegar mun meiri á fagurmótaðan og vöðvastæltan líkama – sem í raun opnar á nýja markaði. Þennan áherslumun má meðal annars sjá ef bornar eru saman myndir úr nærfataauglýsingum af metrósexúalmanninum David Beckham og spornósexúalmanninum Cristiano Ronaldo.

Samkvæmt Simpson er heitasta ósk spornósexúalmannsins að einhver þrái hann; að einhver þrái hann vegna líkamsburðar en ekki vegna klæðaburðar og vitsmunir mega hvergi koma þar nærri.

Enga feimni!

Hringdu núna! Við erum samskiptastofa. Það er gott að tala við okkur. 

Bankastræti 9
520-2700
Facebook
Instagram
YouTube

Þú getur skráð þig á póstlistann okkar. Við sendum bara einu sinni í mánuði og segjum bara frá því sem er skemmtilegt.