Joy emoji

Broskallinn sem grætur af hlátri valinn orð ársins

Oxford-orðabókin valdi tákn sem orð ársins 2015. Guðrún Kvaran, fyrrverandi forstöðumaður Orðabókar Háskólans er sátt við valið – broskarlinn sem grætur af hlátri.

Í fyrsta sinn í sögunni hefur tákn í myndletri verið valið orð ársins af Oxford-orðabókinni. Mörg orð komu til greina en að mati dómnefndar orðabókarinnar náði táknið sem sýnir broskarl grátandi af hlátri að fanga á sem bestan hátt stemningu ársins 2015.

Ástæðan fyrir valinu er einföld. Oxford-orðabókin í samstarfi við SwiftKey-tæknifyrirtækið komst að því að þessi tegund af tákni er hvað mest notað af fólki um allan heim.

Guðrúnu Kvaran, prófessor í íslensku og fyrrverandi forstöðumaður Orðabókar Háskólans, er nokkuð sátt við valið á orði ársins. Í samtali við fréttabréf H:N Markaðssamskipta segir hún að tákn geti aldrei orðið orð. „En mér líst hins vegar ekkert illa á að velja þetta tákn sem ígildi orðs enda lýsir það svo miklu,“ segir Guðrún. „Það eru mörg andlit eða tákn sem hægt er að velja úr. Þessi tákn eru notuð í tölvupóstum eða á Facebook og með broskarlinum eða táknunum getur sendandinn tjáð sig með miklu færri orðum. Hann getur verið hlæjandi, grátandi, geðvonskulegur og svo framvegis.“

Guðrún segir að ýmis tákn séu þegar komin inn í orðabækur. Íslenskar orðabækur séu að vísu svo gamlar að það er færra um tákn í þeim en nýrri bókum.

„®, sem táknar skráð einkaleyfi, er til að mynda í Íslensku orðabókinni. Þegar ég var að vinna á Orðabókinni fengum við athugasemd frá bifhjólafyrirtækinu Vespu sem var ósátt við að orðið vespa kæmi fyrir í bókinni og vildi taka það út. Við lofuðum að við næstu útgáfu yrði einkaleyfis r-ið sett við orðið vespa sem bifhjól en ég mátti halda inni orðinu vespa sem geitungur,“ segir Guðrún í samtali við fréttabréf H:N Markaðssamskipta.

Emoji /ɪˈməʊdʒi/ er lítil mynd eða tákn sem notað er til að tjá hugmynd eða tilfinningu í rafrænum samskiptum. Emoji leit fyrst dagsins ljós 1998 eða 1999 en skapari hans var Japaninn Shigetaka Kurita. Táknin hafa verið notuð töluvert síðan en mikil aukning varð í notkun þeirra þegar Apple gerði táknin að staðalbúnaði í símum sínum og svo fylgdu aðrir símaframleiðendur á eftir.

Enga feimni!

Hringdu núna! Við erum samskiptastofa. Það er gott að tala við okkur. 

Bankastræti 9
520-2700
Facebook
Instagram
YouTube

Þú getur skráð þig á póstlistann okkar. Við sendum bara einu sinni í mánuði og segjum bara frá því sem er skemmtilegt.