Pokémon go hn

Eru allir að verða vitlausir? – Varúð Pokémonar

Ástandið í Bankastræti hefur verið heldur óvenjulegt síðustu daga. Hópar fólks sýna þar af sér stórundarlega hegðun, hlaupa um með farsímann fyrir augunum og skeyta ekki um neitt sem fyrir verður. Það er furðulega gáskafullt og við fyrstu sýn virðast allir vera að taka myndir en svo er ekki. Líkt og um alla veröld er fólk að leita að Pokémonum. Pokémon Go er orðið stórkostlegasta æði seinni tíma og til marks um vinsældir leiksins þá sóttu alls 75 milljónir appið í Bandaríkjunum á aðeins sjö dögum og með því féll met stefnumóta-appsins Tinder. Hvort það er staðfesting á því að leikurinn sé betri en kynlíf, eins og einstaka maður hefur haldið fram, teljum við á H:N æði ólíklegt.

Það var japanski forritarinn Satoshi Tajiri sem þróaði tölvuleikinn Pokémon fyrir ríflega 20 árum og sameinaði þannig áhuga sinn á starfi sínu og skordýrasöfnun. Markmið leiksins var að safna sem flestum af þeim 151 Pokémonum sem voru í boði þá ( í dag eru þeir meira en 700) þjálfa þá og láta þá berjast. Síðar urðu Pokémonar efniviður vinsælla sjónvarpsþátta. Nafnið Pokémon er samsuða af orðunum pocket og monster.

Nokkrar útgáfur af Pokémon leiknum hafa litið dagsins ljós en í þeirri sem nú hefur tryllt heimsbyggðina fer söfnun Pokémona þannig fram að spilarar þeysast um bæi og borgir og á ákveðnum GPS punktum birtast þeim Pokémonar í gegnum myndavél símans. Pokémonarnir geta dúkkað upp hvar sem er; já, þess vegna við hliðina á þér þar sem þú situr og teflir við páfann.

Leikurinn er ókeypis en eins og við er að búast eru menn löngu búnir að átta sig á markaðstækifærum sem honum fylgja. Umræðan snýst því að einhverju leiti um það núna hvernig fyrirtæki geti nýtt sér þetta æði í markaðslegum tilgangi. Fyrirtæki hafa t.d. sýnt því áhuga að fá nokkra Pokémona í nálægð við sig, því þeim fylgir eðlilega hrúga af fólki sem vill veiða þá. Einnig berast af því sögur að aðrir vilji losna við þá úr sínu nærumhverfi. Nýlega fóru forráðamenn Auschwitz-safnsins fram á það að leikurinn næði ekki þangað og fleiri hafa bæst í þann hóp.

Einhver umræða hefur orðið um það hvort að leikurinn geti orðið til þess að koma fjölda manns á hreyfingu sem ver löngum tíma í kyrrsetu fyrir framan skjái og það ætti að gleðja þá sem hugsa fyrst og fremst um lýðheilsu. Hvað sem þessu líður er ljóst að það eru spennandi tímar framundan í þessari tækni sem kölluð er augmented reality og vísar til þess að í gegnum kortaleiðsagnir snjalltækja er hægt að virkja alls konar upplýsingar með því að nota staðsetningu tækisins.

Góða veiði.

Enga feimni!

Hringdu núna! Við erum samskiptastofa. Það er gott að tala við okkur. 

Bankastræti 9
520-2700
Facebook
Instagram
YouTube

Þú getur skráð þig á póstlistann okkar. Við sendum bara einu sinni í mánuði og segjum bara frá því sem er skemmtilegt.