Google 2016

Guðni Th. mest gúgglaður

Guðni Th. Jóhannesson forseti var sá Íslendingur sem Íslendingar gúggluðu oftast á árinu, samkvæmt úttekt auglýsingarstofunnar H:N Markaðssamskipta.

Google 2016

Guðni Th. var gúgglaður rúmlega 34 þúsund sinnum á árinu en hann var sem kunnugt er kjörinn forseti Íslands í júní. Guðni Th. var gúgglaður tæplega 15 þúsund sinnum oftar en bardagakappinn Gunnar Nelson sem var gúgglaður næst oftast eða tæplega 20 þúsund sinnum talsins. Gunnar var mest gúgglaði Íslendingurinn í fyrra, samkvæmt úttekt H:N Markaðssamskipta.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra, er í þriðja sæti yfir þá Íslendinga sem Íslendingar gúggluðu oftast, en leit að honum rauk upp í kjölfar Wintris-málsins svokallaða.

Vigdís Finnbogadóttir er í því fjórða og Ragnar Sigurðsson, landsliðsmaður í knattspyrnu stingur sér í fimmta sætið en hann fór mikinn á Evrópumótinu í Frakklandi í sumar.

Athafnamaðurinn Björn Steinbekk er svo í því sjötta en hann var einnig áberandi í umræðunni í kringum Evrópumótið í knattspyrnu.

Athygli vekur að íþróttafréttamaðurinn Guðmundur Benediktsson kemur nýr inn á listann en frægðarsól hans skein hvað hæst þegar hann lýsti leikjum strákanna okkar á Evrópumótinu í sumar. Áhuginn á Gumma rauk upp í kringum Evrópumótið og öruggt að líflegum lýsingum hans á leikjum karlalandsliðsins sé þar að þakka.

Gummi Ben google

Þegar horft er til þess hvað heimurinn gúgglaði um Ísland kemur í ljós að flestir voru forvitnir um kraftajötuninn Hafþór Júlíus Björnsson en um 1,6 milljón manna gúgglaði hann á árinu. Hafþór fór mikinn á árinu sem er að líða og lék meðal annars The Mountain í sjónvarpsþáttaseríunni Game of Thrones. Í úttektinni er ekki gert ráð fyrir að fólk hafi gúgglað The Mountain enda myndi það skekkja niðurstöðuna allverulega þar sem ýmis fjöll kæmu þá inn í leitarniðurstöðurnar.

Hljómsveitina Of Monsters and Men er í öðru sæti en um ein og hálf milljóna manna gúgglaði hljómsveitina. Hljómsveitin Kaleo kemur ný inn á listann en tæplega 1,4 milljónir manna flettu upp hljómsveitinni á Google. Björk okkar vermir svo fjórða sætið. Listamaðurinn Erró er í fimmta sæti, Gunnar Nelson í því sjötta. Gylfi Sigurðsson og crossfitstúlkan Sara Sigmundsdóttir sitja svo saman í sjöunda og áttunda sæti listans, Ragnar Sigurðsson í því níunda og leitarorðið Miss Iceland í því tíunda en skemmst er að minnast þess þegar Arna Ýr Jónsdóttir lét aðstandendur keppninar Miss Grand International hafa það óþvegið.

google gummi ben

Þetta er í þriðja sinn sem H:N Markaðssamskipti gera úttekt á mest gúggluðu Íslendingunum. Ekki er um vísindalega rannsókn að ræða og ber að líta á „gúggllistann“ sem samkvæmisleik frekar en heilagan sannleik.

Enga feimni!

Hringdu núna! Við erum samskiptastofa. Það er gott að tala við okkur. 

Bankastræti 9
520-2700
Facebook
Instagram
YouTube

Þú getur skráð þig á póstlistann okkar. Við sendum bara einu sinni í mánuði og segjum bara frá því sem er skemmtilegt.