Halldór Kiljan Laxnes poppart

Halldór Laxness – enginn skáldskapur jafn hugstæður og auglýsingar

Það kann að koma ýmsum á óvart en fyrsti textinn sem Nóbelsskáldið Halldór Kiljan Laxness lærði utanbókar 5 ára gamall var ekki Hávamál og alls ekki Illíonskviða heldur auglýsing í bundnu máli um gæði freðýsu. Næst lagði hann á minnið lofgerðar-auglýsingu um útlenda brauðmylsnutegund sem kölluð var röfl og svo gullaldar-auglýsingatexta um kínverskt allsherjarmeðal sem fundið var upp í Danmörku af þeim ófræga manni Valdimar Pedersen. Fimmtíu og tveimur árum síðar skrifaði hann: „Enn þann dag í dag er mér varla nokkur skáldskapur jafnhugstæður og auglýsingar ...

Eru auglýsingar lykillinn að ritsnilld og metsöluskrifum Halldórs Kiljans Laxness?

Nóbelunginn litli lærði sem sagt fyrst af öllu að meta listrænan sölutexta, skreyttan hæsta stigs fullyrðingum og tilvitnunum í trúverðugasta fólk landsins (sic!), kómískan og persónulegan, lýsandi smáu samfélagi í stuðluðu máli – en allt eru þetta höfundareinkenni Halldórs og um leið ágæt lýsing á glansbæklingi frá íslenskum stórbanka.

Án efa var það absúrdisminn í því kátlega klossaða samtali sem kaupmaðurinn var að reyna stofna til, sem vakti síðar kátínu Laxness; absúrdisminn í því að birta texta opinberlega sem reyndi að hreyfa við fólki og fá það til aðhafast og selja um leið eitthvað hversdagslegt, allt að því fáránlegt.

Í Kristnihaldi undir jökli stillir Laxness upp norður-amerískum auglýsingum upp við hlið kaþólskrar trú. Þar segir:

„Ég vona samt að nú skiljið þér af hverju við höfum bæði Vatíkan og hóruhús í kaþólskunni. Þegar ég hafði sleppt saltaranum mínum í Suður-Amriku og var farin að lesa auglýsingar í Norðuramriku, eina lesmálið í heiminum sem nú á tímum boðar það góða og trúir á lífið og fyllir lesandann af trúnaðartrausti og bjartsýni, þá hreifst ég svo af auglýsingu um meðal til að framkvæma lyktarlaust samræði, að ég flýtti mér að kaupa túbu„

Umbi: Ég nótera það frú.“

 Á sama hátt eru tilskipanir stjórnvaldsins hafðar að háði í auglýsingunni á uppboði á Sumarhúsum Bjarts sem hljómaði: „Hundar, sál o.fl. Nauðungaruppboð. Samkvæmt kröfu Þjóðbankans.“


Fáránleiki auglýstra samskipta  náði þó hámarki í skáldsögum Laxness í eftirfarandi auglýsingu frá Beinteini á Króknum í Sölku Völku:

„Það er ekki satt sem staðið hefur í dagblöðunum, að fótur sá sem ég fékk á s.l. vetri frá Þýskalandi hafi verið skrúfaður af mér vegna stjórnmála (pólitíkur) á s.l. vori. Heldur vegna þess að lítilsháttar misskilningur reis hér á staðnum útaf því hver ætti að borga téðan fót.“

Í  bókum Laxness urðu allar tilraunir fólks til samskipta í gegnum opinberan texta fáránleikanum að bráð. Ef til vill voru auglýsingar í texta Laxness um fram allt afhjúpun þess undarlega fáránleika sem birtist í lesmáli alls kennivalds, í öllum opinberum tilskipunum og kröfum um að ótal ólíkar persónur eigi og verði að ganga í takt og bregðist sjálfkrafa og sameiginlega við hvatningu. Auglýsingar í textum Laxness eru í þeim skilningi áhugaverður fáránleiki, enda fáránleikinn alltaf verið fáránlega áhugaverður í auglýsingum. 

Enga feimni!

Hringdu núna! Við erum samskiptastofa. Það er gott að tala við okkur. 

Bankastræti 9
520-2700
Facebook
Instagram
YouTube

Þú getur skráð þig á póstlistann okkar. Við sendum bara einu sinni í mánuði og segjum bara frá því sem er skemmtilegt.