Hipster christmas

Hipsterinn er dauður! – Dó úr mótsögn við sjálfan sig

Hipsterinn er dauður! Þessu heldur hinn 26 ára gamli rithöfundur David Infante fram í pistli á vefsíðunni Mashable. David sem býr í Brooklyn, er menntaður í enskum bókmenntum, skartar þykku yfirvaraskeggi og ferðast um á hjóli án gíra. Samkvæmt öllu ætti hann því að vera einhvers konar steríótýpa hipstersins. Að hans mati er hipsterinn hins vegar ekki bara dauður heldur er uppnefnið móðgandi þar sem skilgreiningin á hipster sé ónákvæm. Og sem hluti af hinum „skapandi söfnuði“ krefst hann nákvæmari skilgreiningar. Hann vill því meina að ný tegund skapandi fólks hafi tekið við. Hinir einu og sönnu Yuccies.

David viðurkennir fúslega að orðið Yuccies sé ekki fallegt enda merki orðið yuck á ensku oftast eitthvað ógeðslegt. Yuccies er engu að síður vel til fundið þar sem það er samsett úr orðunum Young Urban Creatives. Samkvæmt David tilheyra jukkarnir að einhverju leyti Y-kynslóðinni (aldamótakynslóðinni), ólust upp í úthverfi þar sem þeir voru algjörlega ofdekraðir og þeim var strax innrætt í æsku að menntun er máttur. Jukkarnir eru ekki bara sannfærðir um að þeir verðskuldi að eltast við eigin drauma heldur eigi þeir einnig að hagnast á þeim.

Listrænt frelsi er jukkanum allt Samkvæmt David eru jukkarnir ekki yfirnáttúrulegar verur. Þeir sem búi í stórborgum þekki vel til þeirra; jukkarnir starfi meðal annars við samfélagsmiðlaráðgjöf, forritun, reki jafnvel litla tískuvöruverslun og gangi um með sjálfbær sólgleraugu úr bambus.

Skjót leið að ríkidæmi er eitthvað sem jukkanum hugnast vel en stóri draumurinn er samt að verða ríkur á skömmum tímum og halda listrænu frelsi. Þegar jukkarnir útskrifast úr skóla reyna flestir þeirra fyrir sér í einhverskonar frumkvöðlastarfi jafnvel þó launin séu ekkert til að hrópa húrra fyrir.

Jukkinn, samkvæmt David, vill þó ekki láta skilgreina sig eftir ríkidæmi sínu heldur vegna ríkidæmisins sem varð til vegna hans eigin sköpunar.

Fórnarlamb eigin velgengni

Eins og fram hefur komið er hipsterinn dauður. Þó hann eigi rætur sínar að rekja allt aftur til fimmta áratugar síðustu aldar var hann að mörgu leyti líkur jukkanum. Hipsterinn var bóhem sem vildi gjarnan skilgreina sig sem skapandi einstakling, með puttann á púlsinum – frumlega mannveru sem synti gegn meginstraumum þó aðallega tískustraumum.

Því miður fyrir hipsterana þá urðu þeir aðeins of vinsælir, lífsstíllinn varð of útbreiddur. Frumlegheitin urðu að tískufyrirbæri – hipsterarnir urðu allir eins – hans helsta martröð varð að veruleika. Hipsterinn varð fórnarlamb eigin velgengni og á endanum dó hann úr mótsögn við sjálfan sig.

Þó nútímahipsterarnir hafi orðið fyrir töluverðu aðkasti má ekki gleyma því að þeir eru ekki þeir einu sem hafa gengið í gegnum slíkar raunir. Í raun sluppu þeir nokkuð vel sérstaklega ef horft er til annarra hópa sem einnig hafa siglt á móti straumnum. Hipsterarnir sigldu þá frekar bara nokkuð lygnan sjó eða réttara sagt hjóluðu bara nokkuð auðveldlega í þessum eina gír.

Enga feimni!

Hringdu núna! Við erum samskiptastofa. Það er gott að tala við okkur. 

Bankastræti 9
520-2700
Facebook
Instagram
YouTube

Þú getur skráð þig á póstlistann okkar. Við sendum bara einu sinni í mánuði og segjum bara frá því sem er skemmtilegt.