EM 2016

Lukkudýr Evrópu­keppninnar – Úr spýtustrák í tölvu­teiknaða ofurhetju

Lukkudýr Evrópukeppninnar í knattspyrnu hafa alla jafna vakið athygli allt frá því að þau stigu fyrst fram á sjónarsviðið á Ítalíu árið 1980. Þá var spýtustrákurinn Gosi lukkudýr keppninnar, ef dýr skyldi kalla, með nefið litað ítölsku fánalitunum og fótbolta sér við hlið. Lukkudýrin eru nú orðin tólf talsins en tvisvar hefur það gerst í sögu keppninnar að tvö lukkudýr hafa sameinast um að kynna mót sem haldið er í tveimur löndum.

Eins og gefur að skilja hafa verið skiptar skoðanir á lukkudýrunum og nafngiftum þeirra enda ekki öllum grafískum hönnuðum eða hugmyndasmiðum gefið að finna sameiningartákn eins skemmtilegasta knattspyrnumóts í heimi. Lukkudýrin leika þó stórt hlutverk í allri markaðssetningu mótanna og hefur ýmis varningur þeim tengdum gefið mótshöldurum vel í aðra höndina.

Fjórum árum eftir að Gosi steig fram á sjónvarsviðið var haninn Péno kynntur til leiks þegar mótið var haldið í Frakklandi. Haninn, sem er þjóðartákn Frakka, var klæddur franska landsliðsbúningnum, í rauðum sokkum og takkaskóm.

Þegar keppnin var haldin í Vestur-Þýskalandi árið 1988 héldu gestgjafarnir sig við dýraþemað og buðu upp á Berni, vel byggða kanínu í svartri landsliðstreyju, rauðum stuttbuxum og gylltum sokkum. Berni skartaði líka hvítum ennis- og svitaböndum.

Svíar köfuðu ekki djúpt í hugmyndabrunninn þegar þeir héldu keppnina árið 1992 því þeir buðu einnig upp á kanínu sem var klædd sænska landsliðsbúningnum. Kanínan fékk nafnið Rabbit en ólíkt þýska skyldmenni sínu minnti vaxtarlag hennar meira á sænska landsliðsframherjann Tomas Brolin en þýska stálkanínu.

Englendingar buðu svo upp á ljónið Golitah árið 1996 og sama gerðu Holland og Belgía þegar þau sameinuðust um keppnina árið 2000. Þá fékk ljónið nafnið Benelucky – sem er skírskotun í Benelux-löndin – og skartaði djöflahala og hafði hendur.

Í Portúgal árið 2004 var nýr strákur svo kynntur til leiks sem bar nafnið Kinas en nafn hans er dregið af portúgalska fánanum „Bandeira das Quinas“.

Austurríki og Sviss buðu svo upp á Trix og Flix sem fyrirtækin The Rainbow Production og Warner Bros. hönnuðu en þetta var í fyrsta skipt sem tvö lukkudýr voru notuð til að kynna keppnina. Sömu fyrirtæki komu einnig að hönnun Slavek og Slavko þegar Pólland og Úkraína héldu keppnina árið 2012 – annar klæddur í pólska landsliðsbúninginn en hinn í þann úkraínska.

Strákarnir okkar í íslenska landsliðinu munu svo hitta fyrir Super Victor sem er lukkudýr keppninnar í Frakklandi. Hann er tölvuteiknaður, klæðist franska landsliðsbúningnum og með rauða skikkju. Nafnið Super Victor var valið úr hópi nokkurra nafna en meðal þeirra sem komu til greina má nefna Dribblou og Goalix.

Enga feimni!

Hringdu núna! Við erum samskiptastofa. Það er gott að tala við okkur. 

Bankastræti 9
520-2700
Facebook
Instagram
YouTube

Þú getur skráð þig á póstlistann okkar. Við sendum bara einu sinni í mánuði og segjum bara frá því sem er skemmtilegt.