Eurovision 2015

Miðaldra íslenskir karlmenn elska Eurovision

Nú er ein stærsta sjónvarpsvika landsins gengin í garð – sjálf Eurovision-vikan. Keppnin í ár fer fram í Austurríki og eins og alþjóð veit er María Ólafs fulltrúi okkar Íslendinga með lagið Lítil skref. Eurovision-keppnin er merkileg fyrir margra hluta sakir en nú eru um 60 ár liðin frá því hún var haldin í fyrsta sinn. Keppnin er ekki síður merkileg fyrir þær sakir að fáir sjónvarpsviðburðir laða jafn marga Íslendinga að sjónvarpsskjánum. Í fyrra, þegar Pollapönk var framlag Íslands, var meðaláhorf á úrslitakvöld Eurovision um 70% en uppsafnað áhorf um 83%. Sennilega eru það aðeins áramótaskaup og eldgos sem hafa viðlíka áhorf hér á landi. Þó mældist síðasta Áramótaskaup með töluvert minna áhorf en Eurovision-keppnin.

Við hjá H:N Markaðssamskiptum höfum gríðarlegan áhuga á Eurovision og í aðdraganda keppninnar eykst spennustigið til muna. Er það ýmist sökum ástarinnar á tónlist eða ódrepandi áhuga á tölfræði og áhorfsmælingum. Við tókum saman athyglisverðar upplýsingar um áhorfið á keppnina og þar er ýmislegt sem kemur á óvart. Þrátt fyrir að reglulega heyrist háværar raddir þess eðlis að keppnin sé hallærisleg og tónlistin óþolandi, þá eru þeir fáir sem horfa ekki á hana. Staðhæfingar líkt og þær að eingöngu ungar stelpur og samkynhneigðir karlar hafi áhuga á Eurovision virðast svo ekki standast skoðun.

Til að mynda reyndust 73% ungra kvenna á aldrinum 12-30 ára vera við skjáinn þegar mest lét en karlar á aldrinum 55-70 ára voru þó fjölmennari, því alls söfnuðust hvorki meira né minna en 83% þeirra við skjáinn. Konur á aldrinum 30-45 ára náðu engan veginn að trompa karlahópinn en þær náðu mest samanlagt 77% áhorfi. Það er engu að síður gríðarlega mikið áhorf. En áhugi íslenskra karla á besta aldri kemur hugsanlega mörgum á óvart. Til samanburðar má rifja upp að áhorf á einn af þýðingarmeiri knattspyrnuleikjum íslenska karlalandsliðsins, leik Króatíu og Íslands haustið 2013, var einungis 54%.

Til að setja vinsældir Eurovision á Íslandi í samhengi má nefna að 114 milljónir Bandaríkjamanna horfðu á úrslitaleikinn um Ofurskálina (e. Superbowl). Það þýðir að meðaláhorfið á Ofurskálina var um 35%. Ef sami áhugi væri fyrir Ofurskálinni í Bandaríkjunum og fyrir Eurovision á Íslandi hefðu tæplega 230 milljónir Bandaríkjamanna setið límdar við skjáinn. Þess má til gamans geta að dýrasta Superbowl auglýsing allra tíma var sú frá Chrysler í fyrra og kostaði hún litlar 12,4 milljónir dollara eða rúman einn og hálfan milljarð króna.

(Áhorfstölurnar eru unnar upp úr fjölmiðlamælingum Gallup á Íslandi og birtar með góðfúslegu leyfi þeirra).

Enga feimni!

Hringdu núna! Við erum samskiptastofa. Það er gott að tala við okkur. 

Bankastræti 9
520-2700
Facebook
Instagram
YouTube

Þú getur skráð þig á póstlistann okkar. Við sendum bara einu sinni í mánuði og segjum bara frá því sem er skemmtilegt.