Hillary Clinton merki

Misheppnað merki Hillary Clinton

Nú er ljóst að Hillary Clinton sækist eftir því að verða forseti Bandaríkjanna þegar gengið verður að kjörborðinu á næsta ári. Hillary hóf kosningabaráttu sína fyrir skömmu og að vanda er ekkert til sparað. Eins og aðrir frambjóðendur í bandarísku forsetakosningunum létu stuðningsmenn Hillary útbúa merki framboðsins (e. logo) og sitt sýnist hverjum um ágæti þess.

Merkið er samsett úr bókstafnum H sem er blár að lit og rauðri ör sem vísar til hægri. Grafískir hönnuðir hafa verið allt annað en sáttir við merkið og eru flestir á því að það hefði frekar átt að enda í ruslatunnunni.

Margir hafa reynt að túlka lógóið; sumir vilja meina að rauði liturinn sýni að hún ætli að færa sig lengra til hægri á hinu pólitíska litrófi á meðan aðrir segja merkið hvetja fólk til að „gera hlutina sjálft“ og vilja meina að Clinton-hjónin hafi sjálf séð um hönnun merkisins. Þá eru einhverjir sem segja það líkjast merki Wikileaks eða póstsendingaþjónustunnar Federal Express. Þeir sem lengst ganga segja merkið minna á flugvél að fljúga á Tvíburaturnana.

Fallegt og ljótt eru hugtök sem tíminn fer með eins og honum sýnist. Það sem er smart í dag þykir plebbalegt að tíu árum liðnum og það sem nær ekki að heilla samtímann getur hitt í mark löngu síðar. Það er örugglega góð og gild ástæða fyrir því að þetta merki var valið. Scott Thomas, hönnunarstjóri fyrir framboð Baracks Obama árið 2008, segir merki Hillary ekki tákna neitt sérstakt. „Ég held að þetta merki segi ekkert sérstakt. Það sýnir bara rauða ör sem bendir til hægri.“

Hillary er þó ekki sú eina sem hefur átt erfitt uppdráttar með hönnun sína. Sem dæmi má nefna skartaði merki Ted Cruz, sem var fyrstur til að lýsa yfir því að hann sæktist eftir útnefningu til forsetaframboðs, rauðum loga með bláum og hvítum lit í. Merkið minnir mögulega á fána í ljósum logum eða jafnvel frekar ís í brauðformi.

Ýmsir hafa snúið út úr merki Hillary þar á meðal þeir andstæðingar Demókrata sem blönduðu saman merkinu hennar og merki Barack Obama. Grafíski hönnuðurinn Rick Wolff lét sig ekki muna um að snara fram leturgerð, sem hann kýs að kalla Hillvetica, þar sem allir bókstafir bandaríska stafrófsins eru hannaðir í anda merkisins.

Hvað sem öllum merkjum líður er ljóst að það er spennandi kosningabarátta framundan og í baráttunni um útnefningu stóru flokkanna mega menn illa við því að misstíga sig. Hvort að þessi umræða hafi einhver áhrif á framboðið er erfitt að segja. Mögulega er það bara hinn grafíski heimur sem sýpur hveljur á meðan meirihluti kjósenda gefur merkinu engan gaum.

Enga feimni!

Hringdu núna! Við erum samskiptastofa. Það er gott að tala við okkur. 

Bankastræti 9
520-2700
Facebook
Instagram
YouTube

Þú getur skráð þig á póstlistann okkar. Við sendum bara einu sinni í mánuði og segjum bara frá því sem er skemmtilegt.