Póstlisti

Póstlistar og Soda Stream

Póstlistar eru vannýtt markaðstól. Það er líklega vegna þess að mörgum finnst þeir álíka þokkafullir og Soda Stream tæki. Jú jú, svo sem alveg gagnlegir en eitthvað voðalega gamaldags, hallærislegir og klístraðir. Nei – kannski ekki klístraðir en allt hitt.

En póstlistar geta gegnt viðamiklu hlutverki í markaðsstarfi fyrirtækja alveg burtséð frá því hvort þau þjóni stórum eða smáum hópi, eru á fyrirtækja- eða á neytendamarkaði svo dæmi séu tekin. Það skrifast kannski á frumstæða þörf hjá ákveðnum hluta mannkyns að spá reglulega fyrir um dauða ýmissa fyrirbæra. Kvikmyndahús, diskó, dagblöð, húla- hringir eða hamsatólg. Allt eru þetta fórnarlömb ósanngjarnra og óréttmætra dauðadóma. Áðurnefnd fyrirbæri eru reglulega leidd á aftökupallinn en aldrei tekst að fullnusta dóminn. Fjöldi fólks notar Soda stream tæki enn þann daginn í dag á milli þess sem það gluggar í blöðin, dansar diskódans með húlahringjum og graðgar í sig hamsatólg á leið sinni í kvikmyndahús.

Ef póstlistar eru notaðir rétt þá geta þeir svo sannarlega gert sitt gagn. En auðvitað þarf að umgangast þá af ákveðinni varkárni. Það þarf til að mynda að gæta hófs í fjölda útsendinga og senda ekki oftar en góðu hófi gegnir og það er vissulega breytilegt hverju sinni. Efnið þarf auðvitað að vera áhugavert og síðast en ekki síst þá ætti alltaf að hlekkja áfram úr slíkum póstum í ítarefni á vef eða samfélagsmiðli. Þannig er hægt að fylgjast með áhuga viðtakenda og sjá hversu margir opna póst, smella á hlekki og þess háttar. Slíkar upplýsingar gætu gagnast mörgum; þ.e. að sjá hverjir hafa kynnt sér ákveðið efni eða skoðað vörur upp á áframhaldandi samskipti eða söluferli.

Fjöldi íslenskra fyrirtækja hefur aðgang að netföngum viðskiptavina sinna en kýs ekki að nota póstlista. Hvers vegna verður að teljast ákveðinn leyndardómur því þarf er um einstaklega einfalda leið til þess að koma upplýsingum til viðskiptavina eða hagsmunaaðila, hvort heldur sem fyrir vakir að upplýsa, selja, leiðbeina eða hvað annað. En æ fleiri eru þó farnir að sjá að það hefur sannarlega ýmsa kosti að nota póstlista.

Líkt og þeir vita sem aldrei gáfust upp á Soda Streaminu, þá þarf bara lágmarks viðhald og sjá til þess að gólfið sé skúrað aðeins oftar þar sem tækið stendur.

Enga feimni!

Hringdu núna! Við erum samskiptastofa. Það er gott að tala við okkur. 

Bankastræti 9
520-2700
Facebook
Instagram
YouTube

Þú getur skráð þig á póstlistann okkar. Við sendum bara einu sinni í mánuði og segjum bara frá því sem er skemmtilegt.