Sólskinssósa

Pottþétt veður 15

Það hefur blásið heldur hressilega á landsmenn síðustu misseri og reynt svo um munar á margt lundargeðið. Á einum sólarhring hefur veðrið verið jafn margbreytilegt og Pottþétt plöturnar, tvöfalda safnplöturöðin frá Skífunni, þar sem eina mínútuna svífur ljúf ballaða eins og létt gola um hársvörðinn en þremur mínútum síðar er brostið á með harðkjarnapönki í formi hríðarbyls sem frussast framan í grettin andlitin. Öll safnplatan er spiluð yfir daginn og hvert og eitt veðurbrigði fær að njóta sín. Um stund.

Á dögum sem þessum er tilhneigingin sú að kenna þetta veður við einhvers konar saur eða úrgang, þ.e. ef veðrið þykir ekki nógu skemmtilegt. Áður fyrr tíðkaðist nú aðeins fjölbreyttari og fágaðri orðaforði - það segir okkur sú orðafjöld sem við eigum yfir þessi veðurafbrigði. Hvort illviðri og ótíð hafi átt sér fleiri áhangendur í þá daga eða sjónvarpsdagskráin hafi verið leiðinleg vitum við ekki en það er greinilegt að fólk nostraði við nafngift veðranna og vindanna.

Þoka er t.a.m. ekki bara þoka. Hún getur verið brýla, brækja, móða, móska, mugga, skodda, sorti og dumba. Þegar snjórinn er það blautur að hann jaðrar við það að vera rigning, kallast hann slydda, klessing, slytting eða bleytufald. Þegar skellur á með snjóbyl er talað um él, þegar élin er dimm er hún kölluð moldél. Snjóhraglandi er kalsanæðingur með slyddu eða hagli. Hundslappadrífa er mikil og stórflygsótt snjókoma í logni, einnig nefnd skæðadrífa. Fyrir vestan gæti hundslappadrífan verið kölluð frekar kafaldsmyglingur.

Eins og sést þá ber okkur að vera ögn nákvæmari en svo að tala um “skítaveður”. Umfram allt er góð regla að klæða sig eftir veðri og fyrir alla muni að reyna að brosa!

Svo eru reyndar aðrar aðferðir góðar. Þú gætir hlustað á skemmtilega og sumarlega tónlist, gætir keypt sólskinssósu í dollu eða lagað sumarlega súpu. Til að enda þessi skrif á uppbyggilegum nótum er hér uppskrift að sólríkri súpu fyrir fjóra eftir Álfheiði Hönnu Friðriksdóttur:

Sólrík sumarsúpa

  • 4 bollar aldinkjöt úr canalaoupe-melónu
  • 1 msk. sítrónusafi
  • 3/4 bolli hrein jógúrt
  • 1 tsk. hunang
  • 2 msk. rifin engiferrót
  • nokkur fersk myntulauf (má sleppa)

Blandið saman í matvinnsluvél melónum og sítrónusafa. Hellið í stóra skál og blandið jógúrt og hunangi saman við. Kreistið safann úr engiferrótinni í gegnum fínt sigti eða klút út í súpuna. Kælið.

Hrærið í súpunni áður en henni er hellt í fjórar skálar. Skreytið með ferskri myntu.

Enga feimni!

Hringdu núna! Við erum samskiptastofa. Það er gott að tala við okkur. 

Bankastræti 9
520-2700
Facebook
Instagram
YouTube

Þú getur skráð þig á póstlistann okkar. Við sendum bara einu sinni í mánuði og segjum bara frá því sem er skemmtilegt.