Coockie monster

Re-marketing. Frelsun eða plága?

Á dögunum keypti sá sem þetta ritar sér snjallúr. Það þýddi all nokkra heimsóknir á vefsíður söluaðila og samanburðarrannsóknir sem á endanum leiddu til ákvörðunar. Úrið var keypt á vefsíðu viðkomandi framleiðanda. Nú eru nánast 4 vikur liðnar síðan kaupin áttu sér stað en ennþá sér framleiðandinn ástæðu til þess að hvetja mig til þess að kaupa úrið með auglýsingum sínum. Þetta er álíka leiðinlegt og að vera eltur af starfsmanni Sportsdirect út á bílaplan með glænýja hlaupaskó og hlusta á hann endurtaka í sífellu:

  • „Viltu kaupa hlaupaskó“?
  • „Viltu kaupa hlaupaskó“?
  • „Viltu kaupa hlaupaskó“?

Ég er viss um það að jafnvel þolinmóðasta fólk mundi á endanum segja viðkomandi að loka öndunarveginum hið snarasta.

En hver kannast ekki við þetta að hafa skoðað ákveðna vöru eða þjónustu á vefnum og verið svo beinlínis að drukkna í auglýsingum frá viðkomandi næstu daga og vikur á eftir? Þessi aðferð er kölluð remarketing og í sem einföldustu máli er þetta gert þannig að kóða er komið fyrir á vefsíðunni. Kóðinn kemur fyrir köku (cookie) í vafranum þínum þegar þú skoðar viðkomandi síðu. Þannig er hægt að auglýsa vöruna beint til þín í framhaldi af heimsókn þinni.

Auglýsingarnar verða á vegi þínum á aðskiljanlegustu vefsíðum sem þú skoðar; fréttasíðum, Youtube, leikjasíðum o.s.frv. Það er hinn alltsjáandi Google-risi sem hefur með árunum tekið að sér að sjá um auglýsingaplássin. Allir virðast sjá sér hag í þessu. Þeir sem reka síðurnar eru dauðfegnir að láta einhvern annan sjá um að sinna auglýsingamálunum fyrir sig og Google fær það sem Google elskar meira en mömmu sína og í raun mest af öllu í heiminum. Upplýsingar um þig og þína netnotkun.

Remarketing er sniðug aðferð til þess að reyna að ná beint til þeirra sem eru áhugasamir um þína vöru. En svo eru þeir sem kunna ekki að hætta. Sagan um úrið er líklega ekkert einsdæmi. En það sorglega er að þetta er einfalt mál að laga. Þannig væri hægt að beina frekar til mín auglýsingum sem benda á sniðug öpp sem henta með snjallúrinu, eða jafnvel aðrar vörur frá sama framleiðanda.

Ímyndið ykkur ef starfsmaður Sportsdirect mundi elta mig út á plan og í stað þess að tuða um skóna benti hann mér á góða hlaupasokka, eða aðrar vörur sem gætu hentað mér?

Það væri óneitanlega jákvæðari upplifun fyrir mig og fyrirtækið mundi líklega selja meira af vörum. En í staðinn er hann með glóðurauga á bílaplaninu og ég kem aldrei þangað aftur.

PS: Það skal tekið fram að hvorki Sportsdirect né starfsmenn þeirrar ágætu verslunar hafa gert nokkuð á minn hlut og ég síður á þeirra. Ég nota verslunina eingöngu sem dæmi og hef ávallt fengið ágæta þjónustu frá þeim og er alfarið á móti ofbeldi.

Enga feimni!

Hringdu núna! Við erum samskiptastofa. Það er gott að tala við okkur. 

Bankastræti 9
520-2700
Facebook
Instagram
YouTube

Þú getur skráð þig á póstlistann okkar. Við sendum bara einu sinni í mánuði og segjum bara frá því sem er skemmtilegt.