meðaláhorf á íþróttir

Tekur fótboltinn við sem þjóðaríþrótt?

Íslenska karlalandsliðið í fótbolta mætir Hollandi í undankeppni EM á fimmtudag. Leikir handboltalandsliðsins hafa yfirleitt notið meiri vinsælda í sjónvarpi. Nú eru hins vegar teikn á lofti um að leikir fótboltalandsliðsins séu að verða vinsælli.

Íslendingar verða límdir fyrir framan skjáinn þegar karlalandsliðið okkar í fótbolta mætir Hollandi, í undankeppni Evrópumótsins í knattspyrnu, á Amsterdam Arena á fimmtudaginn kemur. Strákarnir okkar eiga í fyrsta skipti möguleika á að tryggja sér öruggt sæti í lokakeppni stórmóts – sitja á toppi riðilsins með tveggja stiga forystu á liðið í 2. sæti og fimm stiga forystu á liðið í 3. sæti þegar fjórir leikir eru eftir. Tvö lið komast beint í lokakeppnina. Birtingardeild H:N Markaðssamskipta spáir um 45-50% meðaláhorfi á leikinn sem þykir nokkuð gott áhorf þegar karlalandsliðið er annars vegar.

Leikir íslenska karlalandsliðsins í handbolta hafa yfirleitt notið meiri vinsælda í sjónvarpi en leikir fótboltalandsliðsins. Sem dæmi má nefna var meðaláhorf á leik Íslands og Frakklands í úrslitaleiknum um gullverðlaunin á Ólympíuleikunum í Peking árið 2008 um 51% og leikur Íslands og Póllands á Evrópumótinu 2010 var með 55% meðaláhorf.

Með batnandi gengi fótboltalandsliðsins eru hins vegar æ fleiri farnir að fylgjast með leikjum þess í sjónvarpi. Ísland mætti Tékkum á Laugardalsvelli í júní síðastliðnum og var meðaláhorf á leikinn 31% – sem þykir nokkuð gott áhorf miðað við sumartíma. Þegar Ísland mætti Hollandi á Laugardalsvelli í október síðastliðnum var meðaláhorfið 37% . Í umspilsleikjunum við Króatíu árið 2013, þegar Íslandi mistókst að komast í lokakeppni HM, var meðaláhorfið hins vegar 47% í heimaleiknum og 53% í útileiknum. Hafa ber í huga að fótboltalandsliðið hefur aldrei komist á lokamót ólíkt handboltalandsliðinu sem spilar á lokamóti nánast á hverju ári. Lokamótin hafa ætíð dregið fleiri áhorfendur að skjánum en leikir í undankeppni.

Sem fyrr segir spáir birtingardeild H:N Markaðssamskipta miklu áhorfi á leikinn gegn Hollandi á fimmtudaginn kemur þó það nái kannski ekki sömu hæðum og áhorfið á Króataleikinn. Ef liðið nær hins vegar að tryggja sér sæti í lokakeppni Evrópumótsins má búast við að áhorfið á leiki liðsins muni ná nýjum hæðum - jafnvel hæðum áramótaskaupsins. Skaupið hefur alltaf verið eitt vinsælasta sjónvarpsefnið á hverju ári. Þó aðeins hafi dregið úr áhorfinu í sögulegu samhengi var síðasta skaup með 66,4% meðaláhorf. Ef fótboltalandsliðið fer að trekkja fleiri áhorfendur að skjánum er spurning hvort fótboltinn sé að taka við af handboltanum sem þjóðaríþrótt okkar Íslendinga?

Þess má geta að rúmlega þrjú þúsund Íslendingar eru á leið á Amsterdam Arena til að styðja við bakið á strákunum. Það er um 1% þjóðarinnar. Það þykir nokkuð góð mæting, svona miðað við höfðatölu. Ef við heimfærum þá prósentu upp á önnur ríki samsvarar þetta því að ríflega 3 milljónir Bandaríkjamanna myndu elta landslið sitt, 810 þúsund Þjóðverjar eða 56 þúsund Danir.

Enga feimni!

Hringdu núna! Við erum samskiptastofa. Það er gott að tala við okkur. 

Bankastræti 9
520-2700
Facebook
Instagram
YouTube

Þú getur skráð þig á póstlistann okkar. Við sendum bara einu sinni í mánuði og segjum bara frá því sem er skemmtilegt.