Föstudagurinn 13. apríl 2018

Þjáist þú af friggatriskai­dekaphopiu?

Eru ekki allir búnir að signa sig, slá þrisvar í spýtu og hvísla „sjö, níu, þrettán“ til þess að forða yfirvofandi ólukkubölvun hins óhjákvæmilega; föstudagurinn þrettándi er runninn upp.

Gleðilegan föstudaginn þrettánda apríl! Friggatriskaidekaphopia er fræðilegt heiti á sjúklegum ótta við föstudaginn 13. Þessa fóbíu má einnig kalla paraskevidekatriaphobia, þar sem gríska hugtakið Paraskevi er notað í stað hins norræna heitis föstudaga;  Friggjardags.

Sú alþjóðlega hjátrú að telja alla föstudaga sem bera upp á þrettánda dag mánaðar sem óhappadag er rótgróin í íslensku samfélagi. Það á einnig við um trú á töluna þrettán. Í nýlegri rannsókn sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands vann fyrir Happdrætti Háskóla Íslands og H:N Markaðssamskipti kom fram að talan þrettán er meðal vinsælustu happatalna sem fólk velur sér. Langflestir eiga sér þó enga happatölu.

Í rannsókninni kom einnig fram að ríflega tveir þriðju Íslendinga telja sig vera hjátrúarfulla. Atvinnurekendum á Íslandi ætti þess vegna ekki að bregða í brún ef starfsmenn tilkynna „veikindi“ í meiri mæli í dag en aðra föstudaga.

Fólk sem þjáist af friggatriskaidekaphopiu kemst illa undan því að líða angistardaga á hverju ári. Þrettándi dagur mánaðanna tólf ber upp á föstudag að minnsta kosti einu sinni á hverju einasta ári. Tilfellin geta – þegar í harðbakkann slær – mest orðið þrjú á ári.

Franklin Delano RooseveltEn hvaðan er þessi ótti við jafn óhjákvæmilegt fyrirbæri og föstudaginn 13. sprottinn? Franklin Delano Roosevelt, sá forseti Bandaríkjanna sem sat lengst í embætti og stýrði Bandaríkjunum í gegnum kreppuna miklu og seinni heimsstyrjöldina, sagði að það eina sem þyrfti að óttast væri óttinn sjálfur, eins og frægt er. Það er hins vegar ekki jafn frægt að hann hræddist föstudaginn þrettánda. Hann forðaðist að leggja í ferðalög á þrettánda degi mánaðar og þótti óþægilegt ef þrettán sátu saman til borðs. Engin merkjanleg ólukka elti Roosevelt á þrettánda-föstudögum. Roosevelt lést fimmtudaginn 12. apríl 1945.

Var Júdas þrettándi lærisveinninn?

Fræðimenn greinir á um eða telja margar ástæður að baki því að talan þrettán sé sögð bera ólukku. Júdasarkenningin er einna þekktust en í henni er vísað til þess að Júdas, einn tólf lærisveina Jesú Krists og sá þrettándi sem settist við Síðustu kvöldmáltíðina, hafi svikið Jesú.

Júdas og Jesú

Eins og kristnifræðigengnir Íslendingar vita lét Júdas Rómverja vita hvar Jesú héldi sig á fimmtudegi vorið örlagaríka árið 33 með þeim afleiðingum að spámaðurinn var krossfestur á föstudegi. Júdasarkenningin um óhappatöluna þrettán kom hins vegar ekki fram í vestrænum heimildum fyrr en nærri 1.900 árum eftir dauða Jesú.

13 dæmi um ólukku tölunnar 13

Undir þessa meginkenningu um óhappatöluna þrettán hefur svo verið skotið stoðum með vísan í misjafnlega tilviljanakennda atburði og atriði.

 1. Sem dæmi má nefna tunglleiðangurinn Apollo 13 sem skotið var á loft klukkan 13:13 að staðartíma í Flórída 11. apríl 1970. Tveimur dögum síðar, hinn 13. apríl, sprakk súrefnistankurinn í tunglferjunni.
 2. Svo var það föstudaginn 13. janúar 2012 þegar skemmtiferðaskipið Costa Concordia strandaði undan ströndum Ítalíu og lagðist á hliðina með þeim afleiðingum að 33 fórust.
 3. Talan tólf er sögð vera hin fullkomna tala. Sé einum bætt við tólf sé það fyrsta skrefið í átt að illsku.
 4. Í norrænni goðafræði var tólf guðum boðið til veislu í Valhöll, öllum nema Loka sem mætti samt.
 5. Miðað við almenna þjóðtrú voru alltaf 13 þrep upp á gálgapallinn þar sem fólk var tekið af lífi. Gálgar voru auðvitað eins misjafnir og þeir voru margir, en fjöldi þrepa upp á pallinn voru oftar en ekki látinn vera 13.
 6. Skipun Filipusar IV Frakkakonungs um að láta handtaka og myrða musterisriddara var gerð föstudaginn 13. október 1307. Filipus skuldaði musterisriddurunum mikið af peningum eftir að hafa tapað stríði við England.
 7. Föstudagurinn þrettándi er enn í dag talinn vera slæmur fyrir viðskipti. Talið er að gríðarlegir fjármunir tapist á hverju ári vegna þess að fólk kýs að gera ekki samninga eða eiga í viðskiptum þegar þrettánda daginn ber upp á föstudegi.
 8. Þrettán ára drengur í Suffolk á Englandi var lostinn eldingu föstudaginn 13. ágúst 2010. Eldingin á að hafa orðið klukkan 13:13. Drenginn sakaði ekki.
 9. Nathan Bedford Forrest, stofnandi Ku Klux Klan-rasistasamtakanna, fæddist föstudaginn 13. júlí 1821.
 10. Bandaríkjamaðurinn Bob Renphrey varð fyrir fordæmalausri ólukku á þessum degi. Þá hafði hann lent í því að vera rekinn, gengið á glerhurð, slasað eiginkonu sína með því að henda hundapriki í hausinn á henni og séð einnig séð konuna hrynja niður stiga. Bob ákvað að vera í rúminu alla föstudaga á þrettánda degi mánaðar þar eftir.
 11. Tupac Shakur
 12. Bandaríski rapparinn Tupak Shakur lést föstudaginn 13. september 1996 eftir að hafa verið skotinn mörgum sinnum í brjóstið.
 13. Mannskæðasti hitabeltisstormur sögunnar gekk yfir Bangladesh föstudaginn 13. nóvember 1970. Minnst 300.000 manns fórust í storminum.
 14. Og í framtíðinni: Föstudaginn 13. apríl 2029 á loftsteinninn 99942 Apophis að fljúga fram hjá jörðinni í tæplega 30.000 kílómetra fjarlægð, mun nær en gervihnettirnir á sporbraut um Jörðu fljúga.

Þessi hjátrú hefur misjafnar afleiðingar fyrir Íslendinga í daglegu lífi. Jafnvel þó við hlæjum yfirleitt að þessari „dellu“ er fátítt að þrettánda hæð háhýsa séu merktar tölunni 13. Það þykir einnig óþægilegt ef 13 manns sitja saman til borðs, eins og lærisveinarnir gerðu með Jesú. Ef slíkt kemur fyrir er næsta víst að einhver við boðið láti lífið innan árs, segir sagan.

Góða helgi!

Enga feimni!

Hringdu núna! Við erum samskiptastofa. Það er gott að tala við okkur. 

Bankastræti 9
520-2700
Facebook
Instagram
YouTube

Þú getur skráð þig á póstlistann okkar. Við sendum bara einu sinni í mánuði og segjum bara frá því sem er skemmtilegt.